stofnræktun OG ELDI

hjá íslenskum kjúklingabændum

ÚTUNGUN

Stofnræktun á Íslandi fer fram með viðurkenndum hætti undir eftirliti Matvælastofnunar. Ferlið þykir bæði skilvirkt og öruggt og skilar hágæðaafurðum til neytenda. Hér á landi er ekki leyfilegt að flytja inn lifandi foreldrafugl. Notað er ræktunarafbrigði sem kallað er Ross 308 sem er eitt það útbreiddasta í okkar heimshluta og sér í lagi Skandinavíu.

 

Ross er bandarískt fyrirtæki með höfuðstöðvar í Skotlandi. Aviagen er framleiðslufyrirtæki á vörumerkjum Ross samsteypunnar, staðsett í Svíþjóð. Félag kjúklingabænda og Samband eggjaframleiðenda eiga og reka fyrirtækið Stofnunga ehf., sem flytur inn egg frá Aviagen en fyrirtækið framleiðir foreldrafugla fyrir 130 lönd og þykir eitt hið öflugasta á sínu sviði.

 

Ross 308 er algengasta ræktunarafbrigðið í holdakjúklingaræktinni og notað víða í Evrópu. Þegar eggin koma til landsins, fara þau beint í sóttvarnarstöð Stofnunga ehf. á Hvanneyri. Stöðin er rekin undir eftirliti Matvælastofnunar og eru eggin í sóttkví í þrjár vikur.

FRUMUPPELDI

Þegar eggin eru orðin klakin og ungarnir dagsgamlir, eru þeir kyngreindir og síðan aldir upp í einangrunarstöð Stofnunga ehf.

 

Eftir um það bil 8 til 9 vikur eru blóðsýni tekin úr fuglunum til rannsóknar á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, þar sem skimað er fyrir öllum algengustu fuglasjúkdómum.

VARP FORELDRAFUGLS

Þegar fuglinn hefur náð 18 til 20 vikna aldri er hann orðinn nálægt 2 kg að þyngd. Hann er þá færður úr eldisstöðinni í varphús hjá framleiðendum. 20 til 24 vikna gamall verður fuglinn kynþroska og hefur varp. Það eru síðan egg þessara fugla sem tekin eru til útungunar og notuð við framleiðslu á kjúklingum.

KJÚKLINGAELDI

Bóndinn fær ungana dagsgamla frá útungunarstöð og kemur þeim fyrir í eldishúsi. Áður hefur húsið verið þrifið, sótthreinsað og spænt. Kjörhiti og rakastig fyrir ungana þarf að vera í húsinu þegar þeir koma í það, einnig þarf að vera frjálst aðgengi að fóðri og vatni og lýsing að vera rétt. Á eldistímanum er hitastig lækkað smám saman eftir þörfum fuglsins, frá rúmlega 30 gráðum í byrjun og niður í tæpar 20 gráður í lok eldis. Áríðandi er að undirburður sé þurr, loftræsting góð og allt eftirlit nákvæmt. Við eldið er notað heilfóður sem að mestu er framleitt í íslenskum fóðurverksmiðjum.

SLÁTRUN

Alifuglasláturhús í landinu eru þrjú og fer slátrun alifugla fram undir eftirliti Matvælastofnunar.

Heim           Um okkur           Stofnræktun           Fjölmiðlar      Hafa samband   

 

Heim        Um okkur         Stofnræktun        Fjölmiðlar       Hafa samband

stofnræktun OG ELDI